SAGA ÚR GRASI

ÞAÐ VAR EINN morgun þegar ég lá í grasinu og sleikti sólskinið einsog ég er vanur að gera á sumrin, að ég sá mann koma gangandi niður fjallið að bænum okkar. Ég sleit upp strá og tuggði og horfði á hvernig hann stiklaði læki og þúfur og nálgaðist óðum. Ég sá að þetta var stór og mikill maður, með þungan bakpoka, og einhvernveginn heldur drungalegur tilsýndar. Hundurinn kom fyrir húshornið og tók að gelta, og mér fannst einhver framandi blær í gelti hans.

Faðir minn kom út úr skemmunni með ljáinn úr greiðusláttuvélinni sem hann hafði lagt á smergelið, ég var stundum þar inni hjá honum og horfði á eldglæringarnar þeytast um allt og í dimmri skemmunni ímyndaði ég mér að ég væri staddur í Staðarfjallinu að horfa á dverg við smíðar, og var þó pabbi heldur stór vexti. Þegar maðurinn kom nær bænum og stikaði stórum yfir túnið, sá ég að hann var enn hávaxnari en pabbi, og með úfið og grásprengt skegg einsog útilegumaður. Pabbi stóð með ljágreiðuna á hlaðinu og pírði augun í sólinni en ég kallaði á hundinn lágum rómi, hann kom og hringaði sig við hlið mína, fór ekki á móti gestinum, einsog hann var þó vanur.

Mér fannst einsog dimmdi á hlaðinu þegar maðurinn kom þangað og staðnæmdist andspænis pabba með þessar þungu brúnir. En fyrr en varði lyftust brúnirnar, varirnar sveigðust í brosi, hann leit til mín, og ég sá að augun voru björt og góðleg einsog í gömlum og lífsreyndum hesti. Þeir heilsuðust, og svo leit hann á mig og ég varð upplitsdjarfari af því ég hafði séð í honum augun, og allt í einu þótti mér hann ekkert skuggalegur. Og hundurinn virtist hafa róast líka. Allt í einu var skroppið út úr mér: „Ertu útilegumaður, eða hvað?”

Hann hló einkennilega djúpt og svaraði: „Ég á að minnsta kosti tjald.”

Sólin var aftur skjannabjört, og fíflarnir glóðu, grasið bylgjaðist í golunni utan frá hafinu, og gráa skeggið hans bylgjaðist með.

Faðir minn lagði frá sér ljágreiðuna og bauð komumanni í bæinn. Þeir hurfu inn um lágar dyrnar, en við hundurinn héldum áfram að vera úti. Stofuglugginn var opinn, og innan stundar sá ég pípureyk liðast út um hann og sundrast í golunni, sameinast svo ofar reyknum úr strompinum, því móðir mín kynti kolavélina einsog hún ætti lífið að leysa og hnyklarnir úr reykháfnum voru einu hnyklarnir á þessum sumarhimni fyrir svo löngu svo alltof löngu.

Svo gekk ég að bakpokanum, sem lá upp við húsvegginn. Hann var hálfopinn, og ég gægðist ofan í hann. Það voru steinar í honum. Allavega litir steinar, og ég seildist ofan í pokann og bar einn steininn upp að sólarljósinu. Hann glitraði og glampaði einsog hann væri kominn úr töfraveröld uppi í fjöllunum, og ég leit upp og fannst ég sjá glitra eins á Súlutindinn í austri. Ofan í pokanum voru líka tvær bækur. Ég skildi ekki hvað stóð utan á þeim. Önnur var í rauðu bandi, hin með grænum spjöldum, og mynd af skeggjuðum manni þrykkt í kápuna. Fyrst hélt ég að þetta væri maðurinn sem átti bakpokann, en svo sá ég að það var ekki. Þeir voru samt býsna líkir. Ég gekk frá öllu í pokanum einsog það hafði verið, og greip þennan volduga göngustaf sem hann gekk við og veifaði honum út í loftið og þóttist vera galdramaður, ætlaði að breyta hundinum í rottu, en hann vildi ekki breytast neitt og geispaði bara ógurlega og lagðist aftur í grasið í sólinni og lygndi augunum. Þá veifaði ég stafnum að sólinni og ætlaði að breyta henni í tungl, en hún vildi heldur ekki breytast. Samt fannst mér einsog áður, að það dimmdi ögn sem snöggvast, og þó voru engin ský á himni. Ég beindi honum að grasinu á túninu og skipaði því að vaxa himinhátt svo hann pabbi fengi mikið hey í hlöðuna sína, en allt var sem fyrr, og ég heyrði grasið ekki gróa. Ég lagði frá mér stafinn og gekk í bæinn.

Þegar ég kom inn í stofuna stóð kaffikannan á borðinu og faðir minn og gesturinn sátu og reyktu pípur sínar og sötruðu úr rósóttu bollunum sem móðir mín hafði tekið úr fína skápnum. Sjálf var hún frammi í eldhúsi og bakaði pönnukökur, og ilmurinn blandaðist pípureyknum. Gesturinn leit á mig þegar ég kom inn, og aftur kom þetta yfir mig, að mér fannst dimma sem snöggvast um leið. En augu hans voru áfram góðleg, og sólin kom inn um lítinn gluggann og nýi vaxdúkurinn með dýramynstrinu á borðinu var svo fallegur í sumarbirtunni.

Þeir voru að tala um fjöllin okkar, og gesturinn spurði og faðir minn svaraði eftir bestu getu.

Enn gerðist það að ég gat ekki á mér setið og spurði allt í einu: „Ætlarðu að eiga heima í fjöllunum okkar?”

Faðir minn leit undrandi á mig, en gesturinn brosti og fálmaði upp í skeggið með krumlunni. Þessi litla stofa varð enn minni þegar tveir svona stórir menn sátu þar við borðið og næstum einsog þoka í stofunni eftir reykingarnar.

Án þess að svara mér hélt hann áfram að tala við pabba, og ég settist hljóður við borðið, mamma kom með mjólk í glasi og upprúllaðar pönnukökur með sírópi, og ég setti pönnuköku í vasa minn til að gefa hundinum á eftir.

Stóra veggklukkan sló hægt og þungt, og gesturinn leit um öxl, hægt; einsog hann væri að fylgja göngulagi klukkunnar, og svo sagðist hann þurfa að fara að tygja sig. Þeir risu á fætur, og ég flýtti mér að ljúka við pönnukökuna sem ég var með, kláraði mjólkina og þurrkaði mér um munninn með handarbakinu.

Á hlaðinu var skjannabjart sem fyrr, hundurinn hafði dottað í grasinu, en hrökk nú upp og snasaði út í loftið, sperrti eyrun.

Gesturinn greip bakpokann við dyrnar, snaraði honum á bakið án erfiðismuna, og samt vissi ég að hann var blýþungur, en axlir hans voru breiðar og sterklegar. Hann seildist í stafinn og mig langaði til að spyrja hvort hann gæti galdrað með honum en ég kom mér ekki að því, enda voru þeir enn að spjalla saman, hann og faðir minn. Ljágreiðan úr sláttuvélinni lá í grasinu og glampaði á hárbeitta tindana. Ég hlustaði á niðinn í ánni sem rann fyrir neðan túnið, það var einsog hún væri að segja eitthvað, en ég gat ekki greint hvað það var. Yfirleitt voru engin orð í straumnum, en stundum fannst mér þau fljóta ofan ána án þess að ég næði að heyra orðaskil, ekki fremur en ég gat heyrt grasið gróa, og samt vissi ég að það var hægt að heyra það, ef maður lagði sig nægilega fram. Ég þóttist vita að hundurinn væri stundum að hlusta á það vaxa þegar hann lá í grasinu og lét sem hann svæfi. Þeir töluðu um sólina og sprettuna og rigningu þarna á hlaðinu, og nú voru engir skuggar á himni. Svo sló gesturinn stafnum í húsvegginn og sagði eitthvað, ég heyrði ekki hvað það var, en röddin var allt í einu orðin mild og lág.

Faðir minn beygði sig eftir ljágreiðunni í grasinu, brá fingurgómum létt yfir tindana og leit yfir til traktorsins sem stóð uppi hjá fjárhúsunum, glampandi rauður FarmallCub.

Móðir mín var komin út á tröppurnar í gráa kjólnum, hún leit undan þegar gesturinn tók í hönd hennar. Svo tókust þeir í hendur, faðir minn og hann, og hann rétti krumluna til mín og klappaði mér á kollinn. Höndin var þung einsog bjarnarhrammur. Hann laut niður að hundinum og klappaði honum líka.

Svo gekk hann af stað, og stefndi í sömu átt og hann hafði komið úr, með pokann á baki, til fjallanna. Hann gekk slægjuna, og það var einsog föður mínum væri alveg sama, þó hann bannaði mér að gera það. Þegar hann var kominn upp fyrir hliðið á girðingunni, sneri hann sér við og lyfti stafnum til himins einsog ég hafði séð Móses gera í myndskreyttu Biblíunni, og skeggið bylgjaðist í golunni einsog grasið sem hann hafði vaðið. Þarnæst opnaði hann hliðið og stikaði til fjalls, tröllvaxinn maður en smár í fjallinu, og hvarf að lokum.

Við horfðum á eftir honum þar til hann sást ekki lengur. Þetta er það sem ég man, og ekkert gerðist nema hann kom þessi maður ofan úr fjöllunum okkar og drakk kaffi hjá foreldrum mínum og átti þennan staf og poka fullan af steinum. Ekkert annað, en ég man þetta samt. Þetta var fyrir löngu svo alltof löngu.

[...]