KISTAN

ÞEIR KOMA YFIR fjallið tólf saman, sex bera kistuna í senn og hinir ganga á eftir; svo er skipt um. Það er enginn vegur yfir fjallið, bara þessi troðningur eftir menn og skepnur meðfram ánni. Þoka liggur í fjallabrúnum umhverfis, teygir stöku kló ofan í skriður. Utar á heiðinni eru vötnin mörgu, full af silungi og pöddum. Mennirnir eru allir klæddir mórauðum fötum og bera hatta með slapandi börðum, samskonar hatta enda er þetta sendinefnd.

Þeir hafa verið sendir innan úr kaupstað að sækja yfir heiðina síðla dags að haustlagi þennan mann sem drukknaði í ánni fyrir handan. Það var læknirinn þeirra sem hafði verið í vitjun og ekki allsgáður á heimleiðinni, og áin köld og dökk og straummikil. Í læknishúsinu í kaupstaðnum bíður konan með börnin, og þeir eru á leiðinni þangað með kistuna. Einn þeirra teymir hestinn sem læknirinn var á þegar hann fór í ána, og hann er hvumpinn og rykkir í tauminn, starir út í heiðina og frýsar. Fyrst ætluðu þeir að láta hestinn draga kistuna á kviktrjám, en þótti það svo ekki nógu virðulegt, því maðurinn var læknir og bjargaði mannslífum og þessvegna bera þeir hann svona á milli sín, hálf tylftin í senn. Það eru varla nokkrir bílar komnir, tæplega vegir sem hægt er að tala um; einhverjar moldarslóðir hingað og þangað um sveitir, kolófærar um leið og dropi kemur úr lofti. Og það rignir mikið hér um slóðir. Mennirnir þramma áfram, álútir, móðir af áreynslunni, og nú liggur leiðin upp í móti, svo er farið yfir læk, meinlausan lítinn læk sem gæti ekki grandað nokkrum manni, en einn mannanna stígur ofan í lækinn og það gusast vatn á kistuna. Þetta er ómáluð kista, ljós viður.

„Hann er þungur, kallinn,” segir einn mannanna, hann er ungur, og hatturinn er of stór á hann, mórauð slagkápan líka heldur víð. Hann reynir að segja þetta glaðlega, en það fellur ekki í góðan jarðveg.

„Þegiðu drengur,” segir aldraður maður í hópnum fyrir aftan. „Þetta var læknirinn okkar. Hann var góður læknir, og hann bjargaði mannslífum. Hann glataði sínu eigin lífi á leið frá því að bjarga ungri konu. Þú skalt hafa vit á að þegja.”

Ungi maðurinn verður enn álútari en áður, bítur á jaxlinn.

„Honum þótti nú samt gott að vökva sig aðeins, það má alveg segja það,” segir annar, sem ber kistuna frá hinni hliðinni.

Þokan er að síga neðar og neðar, það er einsog hún viti hvað stendur til, og lykur loks sínum gráu loppum um hópinn og kistuna, svo vötnin utar á heiðinni hverfa einsog þau hafi gufað upp. Hesturinn rykkir aftur í tauminn og frýsar.

„Undarlegt með þessa á, hún virðist ekki vera svo voðaleg, ekkert dauðafljót, en hún er búin að taka svona marga,” segir maður á miðjum aldri í hálfum hljóðum, hann er nú í hópnum sem á eftir fer.

„Það var kalt og skuggsýnt,” segir gamli maðurinn sem hastaði á þann sem talaði fyrst.

Þeir hvíla í lyngbrekkunni miðri, leggja kistuna frá sér, setjast á þúfur. Hesturinn grípur niður. Gamli maðurinn dregur pípu upp úr vasa kápunnar sinnar, annar tekur fram tóbaksdós og býður í nefið. Innan skamms liðast upp reykur, og rennur saman við þokuna. Allir telja sig rata, enginn hefur orð á því hvort þeir geti nokkuð farið villir vegar í þokunni. Nei, það má ekki hafa orð á því. Það er ekki gott að tala um villur sé maður staddur í þoku. Þá er um að gera að láta sem maður viti nákvæmlega hvert maður er að fara, brosa, segja eitthvað, seilast ofan í vasann eftir pípu, jafnvel þó maður reyki alls ekki. Hér brosa menn að vísu ekki, því kista læknisins er með í för, og hún er sjálfur tilgangur fararinnar, en menn reykja og taka í nefið, tala lágt. Ungi maðurinn sem talaði gálauslega áðan segir ekkert framar, þiggur ekki tóbak, horfir í gaupnir sér, slítur annað veifið upp lyngkló, tætir hana í sundur. Það bíður eftir honum kona í litlu húsi inni í kaupstaðnum, undir gömlu sjávarbökkunum; þau ætla að eiga börn, seinna, og þau eiga að leika sér í grasi sem hefur vaxið milli gömlu sjávarbakkanna og þeirra sem nýrri eru. Uppi á fornu bökkunum er kirkjugarðurinn, og þangað fer hún á endanum kistan sem liggur hér milli þúfna í þoku á þessum ömurlega fjallvegi. Hann langar ekki að bera lík lengur, hann vill ekki fara þá löngu leið sem eftir er með dauðan mann, sama þó sá maður hafi verið læknir og bjargað mannslífum. Hann langar að komast heim, til konunnar í húsinu, þar sem hann finnur líf streyma um allt, jafnvel um timburþilin í veggjunum. Helst vildi hann stökkva á fætur og taka á rás út í þokuna, langt burt frá þessu öllu. Heim, einsog strokuhestur í sögu fyrir börn.

Það er einsog gamli maðurinn sem var svo höstugur áðan í sambandi við lækninn hafi eitthvað slakað á, því nú slær hann úr pípunni sinni ofan á kistufjalirnar og eftir situr svartur sótblettur á ljósum viðnum. Hinir horfa á þetta undan hattbörðunum, en segja ekkert, því hann er elstur í hópnum og það er ekkert hægt að segja við hann. Hann hefur borið marga menn til grafar, kannski ekki jafn langa leið og nú, en þeir segja ekkert við hann af því hann á stystu leið til grafar sjálfur, ef allt fer einsog það á að fara.

„Jæja, piltar,” segir hann við mennina, sem fæstir eru þó mjög ungir. „Nú skulum við haska okkur. Hún er fullgrá fyrir mig, náttvoðin hér á heiðinni.” Hann hneppir kápunni upp í háls og ýtir hattinum ofar á ennið, reynir að bretta upp á börðin, en það gengur ekki vel, þau slapa áfram, og hattarnir í þokunni minna á skötur sem svamla í torfum á grunnmiði þegar þeir silast af stað. Kistan er einsog skip sem hefur sokkið en hrekst áfram eftir botninum með straumum, og grár sandur þyrlast upp.

„Maður hefur heyrt að það séu furðuskepnur í vötnunum hér útfrá,” segir ungi maðurinn allt í einu. Hann er nú í hópnum sem á eftir gengur og teymir hestinn, en gamli maðurinn einn af þeim sem bera kistuna, þeir eru að verða komnir upp á brekkubrúnina, og hann er móður og másandi. Hann einblínir á svartan blettinn eftir öskuna úr pípunni.

„Þær eru víða, furðuskepnurnar,” segir hann án þess að líta um öxl. Hinir segja ekkert, horfa niður fyrir sig allir sem einn. Ungi maðurinn svarar engu heldur, lítur ofan í lyngmóann til beggja handa, heyrir másið og sogið í gamla manninum sem sker sig úr mæði hinna. Hann hugsar áfram um konuna í húsinu, litla húsinu með kvistgluggunum sem snúa niður að sjónum og út til eyjanna. Hann sér mórauð kápulöf flaksast, en í huganum er þessi sól á björtum sumarmorgni, glugginn opinn, sjávarniður, gardínur bærast skjannahvítar. Bærast, flaksast ekki, og hann liggur í rúmi úr ljósri furu, og konan að vakna við hliðina á honum. Hún umlar og segir: „Viltu opna gluggann, vinur.”

Hann horfir á kistugaflinn, hann horfir á rúmgaflinn, og muldrar ofan í frakkaboðunginn í þokunni, í sólinni: „Hann er opinn.”

Gamli maðurinn hugsar líka heim, en það bíður engin kona eftir honum, og hefur aldrei gert. Húsið hans er autt og þegjandalegt, og hann verður gramur þegar ungi maðurinn talar, funar einhvernveginn upp að innan.

Þeir eru komnir upp á brekkubrúnina, leiðin liggur aftur niður á við, niður í dalverpi.

Þokunni svifar frá.

Það rennur á eftir dalnum.