[...]

LEIRKER

EFTIR AÐ KONAN dó fékk hann sér leirbrennsluofn og bjó til krukkur og ker í kjallaranum á litla hvíta húsinu sínu sem stendur upp undir brekkunni, efst í bænum. Þetta var stór maður og lágt undir loft í kjallaranum, hann stóð oft þarna hálfboginn frá morgni til kvölds og renndi og brenndi á veturna, en á sumrin sat hann úti í garðinum innan um hátt rænfang og reynitré og reykti vindla og las blöðin. Hann las blöðin mjög hægt og vandlega, og sérstaklega las hann minningargreinar með athygli, kannski fannst honum að hann kæmist með því móti nær konunni sinni, sem var nú svo langt í burtu þó hún lægi bara hérna í kirkjugarðinum upp frá.

Einn morgun að sumarlagi þegar hann kom á fætur og ætlaði að athuga með blaðið, var það ekki komið, en á gólfinu lá stór munnharpa, lögð skelplötum. Hann tók hana upp og var hugsi á svip, setti hana svo í vasann og gekk inn í eldhús til að hita sér morgunkaffið og drekka glas af súrmjólk, standandi við bekkinn. Þegar hann fór svo út í garðinn undir hádegi og settist í stólinn við reynitréð, dró hann upp þessa munnhörpu. Hann hafði aldrei spilað á munnhörpu áður, en mundi setningu úr Þrúgum Reiðinnar eftir John Steinbeck, þar sem einhver sagði að munnharpan væri eina hljóðfærið sem maður gæti lært á hjálparlaust. Hann sat í garðinum allan þann dag og blés og sogaði. Dagarnir liðu, hann fór sjaldan niður í kjallarann til að renna og brenna leirker, en sat í garðinum þegar viðraði og spilaði á munnhörpuna meðan hann las blöðin. Svo kom langur rigningarkafli og hann fór að vera meira niðri, og krukkur og ker söfnuðust á hillur í kjallaranum. Hann var löngu búinn að renna ker undir sjálfan sig þegar hann yrði brenndur. Nú renndi hann krukkur sem konan hans hefði notað í stofuna ef hún hefði lifað.

Það var á rigningarkvöldi síðla þetta sumar, að barið var á kjallaradyrnar meðan hann var að leggja ker í ofninn. Hann brá við og opnaði, og úti stóð drengur, á að giska átta ára, í grænni regnkápu.

„Halló,” sagði drengurinn.

Maðurinn blés frá sér vindlareyk áður en hann svaraði.

„Halló,” sagði hann svo.

„Þú hefur fengið munnhörpuna?” sagði drengurinn.

„Varst það þú sem lést hana inn til mín?” spurði maðurinn og horfði fast á drenginn.

„Já.”

„Þetta er góður gripur,” sagði maðurinn. „Ég kann samt ekki mikið á hana ennþá.”

„Ég hef heyrt þig æfa þig úti í garðinum,” sagði drengurinn.

Maðurinn leit undan og hóstaði. Það var dautt í vindlinum.

„Mig langar að sjá þig vinna við leirkerin,” sagði drengurinn.

„Hvernig veist þú að ég bý til leirker?” spurði maðurinn.

„Pabbi segir að þú sért svolítið undarlegur eftir að konan þín dó.”

„Það er einmitt það,” sagði maðurinn. „Er undarlegt að búa til leirker?”

„Ja, þú ert eini maðurinn hér í bænum sem gerir það.”

„Er þá ekki líka undarlegt að spila á munnhörpu úti í garði?”

„Ég hugsa það,” svaraði drengurinn.

Maðurinn vék til hliðar, og drengurinn steig inn í grænu regnkápunni, sem vatnið draup af. Maðurinn hélt þegjandi áfram iðju sinni nokkra stund, og drengurinn fylgdist með.

„Ég ætla að láta brenna mig ofan í þetta ker,” sagði hann svo og benti á kerið sitt á hillunni.

„Þú átt ekki að hugsa svona,” sagði drengurinn.

„Hvernig á maður að hugsa?” spurði maðurinn.

„Maður á að lifa,” sagði drengurinn.

„Til hvers?” spurði maðurinn.

Drengnum varð orðfall, hann hneppti frá sér regnkápunni og tók að strjúka krukku sem stóð á bekk við gluggann. Niður rúðuna runnu í sífellu regntaumar sem loftljósið í kjallaranum lýsti og drengurinn starði á taumana og hugsaði hvað þeir kvísluðust einkennilega.

„Maður á að lifa,” sagði hann aftur.

„Viltu mjólk og kex?” spurði maðurinn.

Drengurinn þáði það, og þeir gengu upp þröngan stigann inn í eldhúsið og þar settist hann við borðið meðan maðurinn rótaði í skápum eftir kexi.

Á bekknum við eldavélina lá munnharpan.

„Spilaðu á hana fyrir mig,” sagði drengurinn.

Maðurinn skellti kexpakka á borðið.

„Ég kann ekki nóg til að halda tónleika,” sagði hann.

„Þú getur spilað fyrir tréð hérna úti,” sagði drengurinn.

Maðurinn hristi höfuðið, greip munnhörpuna og fór að blása heimatilbúið lag. Reynitréð bærði votar greinar fyrir utan gluggann einsog til samræmis við hljómfallið, og kannski kunni það þetta lag, því hann var búinn að spila það oft í garðinum um sumarið, og það var tileinkað konunni sem lá í grafreitnum fyrir ofan bæinn.

„Þú getur víst spilað,” sagði drengurinn, þegar hann hafði lokið laginu.

„Borðaðu kexið þitt,” sagði hann við drenginn og lagði frá sér munnhörpuna.

„Amma gaf mér þessa munnhörpu,” sagði drengurinn. Hann bruddi kex í ákafa.

„Skilaðu kveðju til ömmu þinnar,” sagði maðurinn annars hugar.

„Það er ekki hægt. Hún er dáin,” sagði drengurinn.

„Það er kannski hægt samt,” sagði maðurinn. Hann kveikti sér aftur í vindli og eldhúsið fylltist á svipstundu af reyk; síðustu ómarnir frá munnhörpunni hopuðu undan fram ganginn.

„Jæja, nú verð ég að fara heim,” sagði drengurinn. Hann reis á fætur. Regnkápan hans hafði þornað við eldhúsofninn.

Í forstofunni sagði hann: „Viltu renna ker handa mér?”

„Til hvers ætlarðu að nota það?” spurði maðurinn, dálítið þurrlega.

„Ég ætla að nota það undir regnvatn,” sagði drengurinn. „Og svo ætla ég að veiða hornsíli og setja þau í regnvatnið. Ég hef heyrt að regnvatn sé svo gott fyrir hornsíli að lifa í.”

„Ég skal renna handa þér ker,” sagði maðurinn. Það vottaði fyrir brosi á vörum hans.

„Þá kem ég aftur bráðum og fæ hjá þér kerið,” sagði strákurinn. Hann hneppti að sér regnkápunni. Nú rigndi ekki eins mikið og þegar hann kom.

„Góða nótt,” sagði maðurinn.

„Góða nótt,” tók drengurinn undir úti við garðshliðið.

Maðurinn lokaði dyrunum. Hann gekk inn í eldhús á ný, slökkti þar ljósin, fór síðan aftur niður stigann ofan í kjallarann og tók að smíða nýtt leirker.

„Hornsíli,” tautaði hann. Svo fór hann að blístra lag.

Uppi á bekknum í eldhúsinu, í myrkrinu, lá munnharpan. Kexpakkinn enn á borðinu, mylsna um allt borð, og hálftómt mjólkurglas.