[...]

Selfoss

Á ég að kaupa fyrir þig Edda mín, eða kemur þú líka?

Hún segir ekkert, en gömul brosvipra tekur sig upp og andlitið ljómar örstutta stund.

Heiður valhoppar sperrt inn í sjoppu eins og fimm ára stelpa á róló, en Edda dragnast hokin, með landsins luntalegasta baksvip.

Það er skínandi morgunsól og logn og útsýni lengst inn á hálendi — inn á miðjuna í mínu eigin landi sem ég hef aldrei komist til þess að kanna. Sprengisandur og Kjölur eru mér terra inkogníta, mínir eigin hálendisvegir óþekktir mér.

Ég halla mér að litla hvíta bílpallinum þar sem valdir hlutir úr búslóð minni hvíla í hrauk undir hirðingjatjaldi, dreg andann djúpt svo mig sundlar af himnesku súrefni og jöklasýn, um leið og ég óska þess að bíllinn breytist í þyrlu og Heiður í flugmann og Edda í stúlkuna vænu sem hún einu sinni var og að við gætum valsað í bónuðum loftsölum yfir hálendinu guðslangan daginn og tekið lagið ef við myndum eitthvert lag.

Heiður stendur við sjoppudyr þegar ég kem inn og horfir á mig með áhyggjusvipnum sem gerir hana enn toginleitari og fer henni álíka illa og Ópið konunni á samnefndu málverki sem hangir á hverju einasta hótelherbergi í Osló og veldur svefntruflunum hjá alþjóðlegum næturgestum.

Edda er á tali við slána á slýgrænni leðurbrók. Þau halla sér upp að búðarborðinu eins og þau séu ófær um að standa í fætur. Höfuðið á stráknum er rakað í hnakka og upp af eyrum, og kleprað taglið nær niður á milli herðablaða. Ó, það er hænan sjálf sem er mætt á svæðið. Það var ekki von ég þekkti hana strax því hún hefur breytt um frísúr.

[...]